Hagtak bauð lægst í Svartaskersbryggju

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Hagtak ehf í Hafnarfirði átti lægra tilboðið í endurbyggingu stálþils við Svartaskersbryggju í Þorlákshöfn sem vinna á að í sumar.

Tilboð Hagtaks hljóðaði upp á tæpar 294,3 milljónir króna og var 3,9 prósentum yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem er 283 milljónir króna. Borgarverk ehf bauð einnig í verkið og hljóðaði tilboð þess upp á rúmar 325,7 milljónir króna.

Verkið felur meðal annars í sér að brjóta og fjarlægja kant, polla og þekju á núverandi bryggju, reka niður 147 stálþilsplötur, steypa 62 akkerisplötur og setja upp stög. Að lokum þarf að steypa um 230 m langan kantbita með pollum og setja upp kanttré, stiga og þybbur.

Verkinu á að vera lokið í síðasta lagi þann 15. október næstkomandi.

Fyrri greinMenning er lífsgæði
Næsta greinBikarinn á loft eftir öruggan sigur