Lögreglan er enn að leita að Stefáni Loga Sívarssyni, 31 árs gömlum Reykvíkingi, sem grunaður er um frelsissviptingu og líkamsárás á Stokkseyri. Fjöldi lögreglumanna tekur þátt í leitinni meðal annars í Árnessýslu.
Lögreglan hóf rannsókn málsins eftir að karlmaður gaf sig fram við lögreglu, en hann sagði að sér hefði verið haldið föngnum í húsi á Stokkseyri í langan tíma. Talið er að maðurinn hafi verið beittur mjög grófu ofbeldi.
Lögreglan handtók í gær tvo menn við Laugarvatn, en þeir eru grunaðir um að hafa tekið þátt í að svipta manninn frelsi. Þeir hafa verið í yfirheyrslum hjá lögreglu í dag. Talið er að mennirnir tveir og Stefán hafi svipt manninn frelsi sínu í Reykjavík og farið með hann á Stokkseyri. Maðurinn sætti því frelsissviptingu í meira en sólarhring.
Ekkert er vitað um hvar Stefán Logi heldur sig, en hann hefur verið dæmdur fyrir alvarlegar líkamsárásir. Leit lögreglu að honum í gær var mjög umfangsmikil en m.a. voru bílar stöðvaðir við Kerið og Laugarvatn og leitað í þeim.