Haldið upp á afmæli Flóaáveitunnar

Sl. föstudag var haldið upp á 85 ára afmæli Flóaáveitunnar við Flóðgáttina. Við sama tækifæri var vegslóði að Flóðgáttinni opnaður formlega.

Flóahreppur og Áveitufélagið stóðu fyrir gerð vegarins með stuðningi frá Vegagerðinni og áhugasömum aðilum fyrir því að auka aðgengi fólks að þessu merka mannvirki.

Fyrirhugað er að setja upplýsingaskilti við Flóðgáttina þar sem hægt verður að fræðast um sögu framkvæmdanna og hefur Menningarráð Suðurlands veitt styrk til þess verkefnis.

Um 400 manns mættu á hátíðina sem haldin var í góðu samstarfi við veðurguðina. Mikið var um dýrðir, flutt voru erindi og ræður og Söngkór Hraungerðis- og Villingaholtskirkju söng.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra opnuðu veginn með viðhöfn. Stefán Guðmundsson í Túni fyrrverandi formaður Áveitufélagsins og Erlendur Daníelsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða voru tryggar stoðir fyrir borða sem Ögmundur og Hreinn klipptu á.

Þór Vigfússon fór á kostum í erindi sínu um Flóaáveituna og þá miklu vinnu sem fólst í framkvæmdum við að gerð hennar og þýðingu fyrir Suðurland allt en áveitan var á sínum tíma umfangsmesta og dýrasta landbúnaðarframkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi.

Að lokinni athöfn við Flóðgáttina bauð Áveitufélagið upp á kaffiveitingar í Þingborg þar sem að Sigurður Sigurðsson kvað að íslenskum sið.

Getraun var hrundið af stað þar sem fólki gafst kostur á að giska á núvirði kostnaðar við framkvæmdir Flóaáveitunnar sem námu 1 mkr. árið 1927 og verða nöfn vinningshafa birt á næstu dögum á heimasíðu Flóahrepps.

Það er ljóst að þó svo að upphaflegu hlutverki Flóaáveitunnar sé löngu lokið hafði hún ómetanlega þýðingu á mörgum sviðum. Hún flýtti fyrir vegagerð um Flóann og leiddi af sér stofnun Mjólkurbús Flóamanna og Kaupfélags Árnesinga og breytti lífi fólks á öllu Suðurlandsundirlendi.

Fyrri greinHálandaleikarnir á laugardag
Næsta greinGuðmundur ráðinn skólastjóri