Leikskólinn Álfheimar á Selfossi verður 30 ára þann 13. desember næstkomandi og af því tilefni verður fjölbreytt afmælisdagskrá í skólanum þessa vikuna.
Á þriðjudag verður opið hús milli 7:45 og 16:30 þar sem núverandi og fyrrverandi foreldrum, systkinum, öfum, ömmum, starfsmönnum og öðrum velunnurum verður boðið í heimsókn að fylgjast með og taka þátt í leik og starfi.
Á miðvikudag kl. 10:15 verður opin skógarferð sem allir í Álfheimum taka þátt í en yngstu tveir árgangarnir fara á Engið. Allir eru velkomnir með.
Á fimmtudaginn, afmælisdaginn sjálfan, verður söngstund í sal kl. 9:00 og kl. 10:30 verður jólaglugginn opnaður. Kl. 14:15 verður svo hátíðarsamkoma í sal Vallaskóla þar sem Álfheimabörnin flytja leikritið Pétur og úlfurinn. Gestum er boðið í kaffi í Álfheimum að sýningu lokinni.
Á föstudag er svo náttfatadagur í skólanum, notalegheit og pizza í matinn.