Bergur Sveinbjörnsson, eigandi veitingaskálans Landvegamót, segist hafa beðið í eitt og hálft ár eftir leyfi fyrir að flytja hálendismiðstöð á Fjallabak.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra fjallaði um málið í síðustu viku og hafnaði hálendismiðstöðinni, í ljósi bréfs frá Umhverfisstofnun.
Bergur sótti um svokallað stöðuleyfi fyrir 1080 fermetra húsþyrpingu sem hefur staðið á Nesjavöllum undanfarin ár. Hann keypti húsin árið 2008 og áformaði að færa þau að gatnamótum Dómadals, Sigöldu og Landmannalauga inni á friðlandið að Fjallabaki. Svæðið er þjóðlenda.
Umhverfisstofnun telur ekki unnt að veita stöðuleyfi. Slíkt leyfi nái aðeins yfir hjólhýsi, gáma og báta í takmarkaðan tíma. Fyrir hálendismiðstöð þurfi deiliskipulag og víðtækt samráð. Forsenda jákvæðrar umsagnar Umhverfisstofnunar væri rammaskipulag af svæðinu.
Bergur segir að byggingaryfirvöld í Rangárþingi hafi ekki staðið sig í stykkinu. Þau hefðu fyrir löngu átt að vera búin að óska eftir við ríkið, eiganda landsvæðisins, að fá að skipuleggja svæðið. „Þessi hálendismiðstöð myndi létta á miðstöðinni í Landamannalaugum sem þolir varla meiri aðsókn,“ segir hann.
Guðfinna Þorvaldsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, segir að sveitarfélagið geti ekki stjórnað því hvar megi setja niður hús á friðuðu svæði og þar að auki þjóðlendu. Umhverfisstofnun og forsætisráðuneytið séu yfirvaldið í þessu máli.