Grunnskólanemendur á Suðurlandi voru alls 2.484 á síðasta skólaári, samkvæmt skýrslu Skólaskrifstofu Suðurlands. Um er að ræða sýslurnar þrjár, Árnes,- Rangárvalla-, og Vestur-Skaftafellssýslu.
Á þessu svæði eru starfræktir fjórtán grunnskólar, þar af tveir sem starfræktir eru á tveimur stöðum, þ.e. Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, í þorpunum tveimur, og Bláskógaskóli, með skóla í Reykholti og á Laugarvatni.
Fjölmennustu skólarnir eru skólarnir á Selfossi; Vallaskóli með 539 nemendur og Sunnulækjarskóli með 498 nemendur. Fámennasti skólinn er Kerhólsskóli í Grímsnesi, en þar eru 32 nemendur.
Í sömu skýrslu er greint frá því að á Suðurlandi séu starfræktir alls nítján leikskólar og miðað við tölur Hagstofunnar frá síðasta skólaári var heildarfjöldi barna í þessum skólum alls 1.051.