Síðastliðinn laugardag brautskráðust 34 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar af 27 stúdentar.
Dúx skólans er Halla Þuríður Steinarsdóttir frá Hellu og fékk hún einnig námsstyrk frá Hollvarðasamtökum skólans. Halla Þuríður fékk einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, stærðfræði og raungreinum.
Halla Þuríður var erlendis og því ekki viðstödd athöfnina en foreldar hennar, þau Steinar Þórarinsson og Halldóra Guðlaug Helgadóttir, tóku við viðurkenningunum með Höllu á Facetime og vakti það mikla kátínu.
Þá fékk Hektor Logi Davíðsson verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku og Sigrún Jitlada Sigurðardóttir fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í félagsvísindum.
Flestir nemendurnir útskrifuðust af opinni línu, nítján talsins en þrír af listalínu, tveir af íþróttalínu og tveir af skrúðgarðyrkjubraut en einnig voru í hópnum verðandi rafvirkjar, vélvirkjar og nemandi af ylræktarbraut, svo fátt eitt sé nefnt.
Kór FSu söng við brautskráninguna og Brynja Hjálmtýsdóttir, fulltrúi 40 ára stúdenta, steig á stokk fyrir hönd hópsins og færði skólanum að gjöf fyrirlestur með Þóri Hergeirssyni og mynd eftir Christine Gísladóttur en þau eru bæði í hópi 40 ára stúdenta.