Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, fékk flest atkvæði allra í Suðurkjördæmi, eins og reyndar í öllum öðrum kjördæmum landsins. Talningu í Suðurkjördæmi lauk rétt fyrir klukkan sjö í morgun.
Kjörsókn í Suðurkjördæmi var 79,6% en á kjörskrá voru 41.295 og alls greiddu 32.859 atkvæði.
Halla Tómasdóttir fékk 11.522 atkvæði eða 35,3%, þar á eftir kom Halla Hrund Logadóttir með 6.252 atkvæði eða 19,1%. Suðurkjördæmi er eina kjördæmið þar sem Halla Hrund hafði betur en Katrín Jakobsdóttir sem var með 6.091 atkvæði eða 18,6%.
Jón Gnarr hlaut 10% í Suðurkjördæmi, 3.280 atkvæði og 142 atkvæðum meira en heimamaðurinn Baldur Þórhallsson sem fékk 3.138 atkvæði eða 9,6%. Arnar Þór Magnússon fékk 1.936 atkvæði eða 5,9%.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fékk 0,7% atkvæða í Suðurkjördæmi eða 231 atkvæði en aðrir frambjóðendur voru með minna en 0,2% atkvæða; Ástþór Magnússon með 76 atkvæði, Ásdís Rán Gunnarsdóttir með 58 atkvæði, Viktor Traustason með 44 atkvæði, Helga Þórisdóttir með 26 atkvæði og Eiríkur Ingi Jóhannsson með 21 atkvæði.