Halldór Benjamín Hreinsson, framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Þjóðskrá Íslands, gefur kost á sér í 2. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.
„Ég hef mikinn áhuga á að gera Hveragerðisbæ enn betri því hér er frábært að búa, en ekki má sofna á verðinum. Ég flutti til Hveragerðis 2017, er í sambúð með Baldvinu Ýr Hafsteinsdóttur og eigum við sex börn samtals, sem flest hafa alist upp hér í Hveragerði,“ segir Halldór í framboðstilkynningu sinni.
„Stöðugt þarf að vinna í að gera góðan bæ betri og mörg eru verkefnin framundan. Áhugi minn er mestur á skipulags-, atvinnu- og íþróttamálum en ég hef setið í stjórn íþróttafélaga svo sem Golfklúbbi Bakkakots og körfuknattleiksdeildum ÍR og Breiðabliks. Ég ætti því að geta lagt mitt að mörkum til að efla íþróttastarf hér í bæ. Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri í nokkrum fyrirtækjum gegnum tíðina, bæði sem eigandi og almennur starfsmaður. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni Þjóðskrár Íslands. Ég þekki því vel til þess að sækja vinnu til Reykjavíkur og tel að bæði þurfi að efla samgöngur hér á milli, sem og efla atvinnu hér í Hveragerði,“ segir Halldór ennfremur.
Halldór Benjamín er menntaður rafeindavirki frá Iðnskólanum í Reykjavík og kerfisfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, hann tók MBA frá Háskólanum í Reykjavík og stundar nú nám í Opinberri stjórnsýslu hjá Háskóla Íslands.