Séra Halldóra J. Þorvarðardóttir, prófastur í Fellsmúla, mun taka að sér Oddaprestakall í aukaþjónustu frá 1. ágúst þú þegar sr. Guðbjörg Arnardóttir hefur hafið störf í Selfossprestakalli.
Þetta staðfesti sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, í samtali við Sunnlenska.
Biskup Íslands hefur auglýst embætti sóknarprests í Oddaprestakalli laust til umsóknar frá 1. október næstkomandi til fimm ára.
Í Oddaprestakalli eru þrjár sóknir, þær eru: Keldnasókn, Oddasókn og Þykkvabæjarsókn. Íbúar í prestakallinu eru rúmlega ellefu hundruð.
Sóknarpresti er skylt að sitja prestssetrið í Odda og hafa umsjón með því.
Umsóknarfrestur rennur út 25. ágúst næstkomandi.