Halldóra ráðin verkefnastjóri íslensku og inngildingar

(F.v.) Tomasz Chocholowicz formaður enskumælandi ráðs Mýrdalshrepps, Delfin Bagsic Dimailig, Halldóra Kristín Pétursdóttir nýr verkefnastjóri íslensku og inngildingar, Kristína Hajniková, Hilary Jane Tricker, Deirdre Ana Stack Marques, Lara Ólafsson og Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri. Ljósmynd/Mýrdalshreppur

Halldóra Kristín Pétursdóttir hefur tekið til starfa sem verkefnastjóri íslensku og inngildingar hjá Mýrdalshreppi. Alls sóttu átta manns um starfið.

Halldóra Kristín hefur lagt stund á nám í félagsráðgjöf og þjóðfræði við HÍ auk þess að taka áfanga í guðfræði. Hún starfaði í yfir 20 ár í verslunarrekstri og sá þá m.a. um starfsmannamál og auglýsinga- og kynningarmál. Hún hefur verið virkur þátttakandi í starfsemi Rauða krossins allt frá árinu 2004 og hefur starfað þar sem sjálfboðaliði og launþegi. Meðal þeirra verkefna sem hún hefur sinnt hjá RKÍ eru ungmennastarf RKÍ, svörun í Hjálparsímann 1717, undirbúningur móttöku flóttamanna auk þess sem hún hefur komið að skyndihjálparnámskeiðum RKÍ á landsvísu.

Halldóra hefur í gegnum starf sitt hjá RKÍ sótt fjölda námskeiða á vegum félagsins, s.s. námskeið í áfallahjálp og sálrænum stuðningi frá 2006. Hún er með leiðbeinenda réttindi frá RKÍ til þess að kenna sálrænan stuðning. Halldóra er einnig sjálfstætt starfandi listamaður og hefur haldið námskeið í vatnslitamálun á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni allt frá árinu 1998.

Halldóra mun í starfi sínu sem verkefnastjóri hafa daglega umsjón og verkefnastýringu vegna innleiðingar á inngildingarstefnu sveitarfélagsins og vinnur náið með enskumælandi ráði. Sem verkefnastjóri mun hún jafnframt skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og annast kynningu á íslensku og inngildingu.

Fyrri greinSelfoss í úrslitaeinvígið eftir tvöfalda framlengingu
Næsta greinÞrír áfram í gæsluvarðhaldi