Hamarsmenn töpuðu gegn úrvalsdeildarliði Vals í lokaumferð Lengjubikarsins í körfubolta í kvöld 105-90.
Valur leiddi allan leikinn en þeir komust í 12-5 í 1. leikhluta og leiddu 31-23 að honum loknum. Valur tók 11-3 leikkafla í upphafi 2. leikhluta og náði þar í þægilegt forskot, 46-31. Staðan var 58-44 í hálfleik.
Hamarsliðið beit meira frá sér í 3. leikhluta en munurinn varð minnstur 11 stig í lok leikhlutans, 82-71, og 9 stig í upphafi þess fjórða, 82-73. Nær komust Hvergerðingar ekki og Valsmenn unnu tiltölulega öruggan sigur.
Brandon Cotton var stigahæstur hjá Hamri með 39 stig, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 16 og Bjarni Rúnar Lárusson 11.