Vegagerðin hefur unnið tillögu um að lækka hámarkshraða á Biskupstungnabraut, frá Grafningsvegi og rétt upp fyrir Þingvallaveg og tvo til þrjá km inn á Þingvallaveg.
„Þetta hefur verið nokkur slysakafli. Vegsýn er almennt ekki góð þarna og mikið er um innkeyrslur á Biskupstungnabraut auk þess sem nokkuð er um gangandi vegfarendur,“ segir Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar.
„Við höfum unnið tillögu um að minnka hámarkshraðann úr 90 km hraða niður í 70 km hraða og nú er verið að leita umsagnar hjá lögreglu og fleiri aðilum en endanleg ákvörðun er hjá yfirstjórn Vegagerðarinnar. Verði umsagnirnar jákvæðar má búast við því að breytingarnar komi til framkvæmda í nóvember,“ sagði Svanur ennfremur.