Undirbúningur vegna Hamarshallarinnar í Hveragerði er nú á lokastigi. Ætlunin er að auglýsa útboð fyrir jól á sökklum og annarri undirbúningsvinnu.
,,Við vonumst til þess að fá gott verð í verkið enda teljum við það frekar einfalt og verktíminn verður nokkuð langur,” sagði Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis.
Húsið verður rétt tæpir 5.000 fermetrar að stærð en það er talið kosta 320 milljónir króna og sagði Aldís að fjármögnun hefði verið tryggð.
Eftir að sökklar liggja fyrir kemur húsið í heilu lagi frá Noregi og verður blásið upp en umfang þess verður mikið og mun sjást greiðlega frá þjóðveginum. Sem dæmi um stærðina þá verða settir upp um 50 reykskynjarar.
Sagði Aldís að hugað verði vel að öllum öryggis- og aðgengismálum og ljóst sé að enginn afsláttur er gefinn á því sviði.