Bæjaryfirvöld í Hveragerði áætla að Hamarshöllin, loftborið knattspyrnuhús á Vorsabæjarvöllum, rísi á næsta ári og verði fullinnréttuð árið 2013.
Þetta kemur fram í greinargerð með þriggja ára áætlun Hveragerðisbæjar sem lögð verður fram á fundi bæjarstjórnar á morgun, fimmtudag.
Á heimasíðu sinni segir Aldís Hafsteinsdóttir að ef allt gangi samkvæmt áætlun eigi sveitarfélagið að geta farið í þessa framkvæmd og samt verið undir skuldaþakinu umtalaða árið 2014. „Það byggir auðvitað á því að höllin er ótrúlega ódýr miðað við stærð. Þetta verður algjör bylting í íþrótta og útivistarlífi bæjarbúa. [Ég] efast ekki um að önnur sveitarfélög munu fylgja í kjölfarið um leið og þau sjá hversu vel mun takast til,“ segir Aldís á bloggi sínu.
Knattspyrnuvöllurinn í húsinu verður 40×64 metrar eða rúmlega helmingur af stærð venjulegs knattspyrnuvallar. Þar rúmast þrír sjö manna knattspyrnuvellir.