Byrjað var að blása upp Hamarshöllina í Gufudal við Hveragerði um kl. 23:30 í kvöld. Um það bil klukkutíma síðar var höllin risin og mænirinn kominn í tæplega 15 metra lofthæð.
Til stóð að blása höllina upp á laugardagsmorgun en það er aðeins hægt ef vindur er undir tveimur metrum á sekúndu. Þrátt fyrir blíðviðri var vindurinn yfir þeim mörkum allan daginn og fram á kvöld.
Fjöldi fólks fylgdist með þegar húsið var blásið upp og var góð stemmning á staðnum. Eftir að verktakar höfðu farið yfir húsið var fólki hleypt inn í höllina í fyrsta skipti.
Hamarshöllin verður fjölnota íþróttahöll sem hýsir gervigrasvöll og fjölnota íþróttagólf í fullri stærð. Stærð íþróttahallarinnar er 5.120 m². Höllin er upphituð úr tvöföldum dúk sem er borinn uppi af innri loftþrýstingi og loftþrýstingi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki.
Inni er þegar kominn hálfur gervigrasvöllur en fyrirhugað er að setja fullkomið íþróttagólf á 1.000 m2 sem nýtast mun til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar.