Hamarshöllin stóðst veðurofsann

Hamarshöllin, hið loftborna íþróttahús Hvergerðinga, stóðst vindálagið í gær en vindur í Gufudal fór hæst í 40 m/sek í verstu hviðunum.

Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, var gærdagurinn viðburðaríkur þar sem um miðjan dag slitnaði tenging við blásara og í kjölfar féll þrýstingur í húsinu um tíma. Með harðfylgi tókst starfsmönnum bæjarins að koma blásaranum aftur í gang og auka þar með þrýsting. Við þetta urðu örlitlar skemmdir á ytra og innra byrði hússins sem lagfærðar verða á næstu dögum.

Vakt hefur verið staðin í húsinu frá því að veðrið skall á og mun því verða haldið áfram fram eftir degi eða þar til lægir.

Bæjarstjóri vill koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsmanna bæjarins, hjálparsveitarinnar og til annarra aðila sem stóðu vaktina með glæsibrag á meðan að stormurinn var sem verstur.

Fyrri greinLoks opið í Lindinni allt árið
Næsta greinErfitt gegn Íslandsmeisturunum