Hamingjudagar í Hveragerði

Í síðustu viku voru þemadagar á yngsta stigi Grunnskólans í Hveragerði. Yfirskriftin var hamingjan og var unnið með hugtakið á fjölbreyttan hátt.

Öllum nemendum var skipt í þrjá stóra hópa sem fóru á þrjár stöðvar, þar sem þeim var aftur skipt í minni hópa. Hóparnir fóru á nýja stöð á hverjum degi þar sem þeir fengust við margvísleg verkefni.

Farið var í sáningarferð í gróðurhúsið sem við höfum aðgang að á Landbúnaðarháskólanum á Reykjum í Ölfusi. Þar var einnig farið í Bananahúsið og tilraunahúsið og m.a. skoðað erfðabreytt bygg. Á sömu stöð fóru nemendur í smiðjur og saumuðu og smíðuðu gripi sem þau skreyttu með orðum sem tengjast hamingjunni. Í myndmennt sköpuðu nemendur hamingjuhnött þar sem allir íbúar voru að sjálfsögðu mjög hamingjusamir.

Í Mjólkurbúinu þar sem 1. bekkur er til húsa var farið í yoga, kennt að nudda bakið á næsta manni og litaðar mandölur við rólega tónlist sem á að vera afar slakandi og gera fólk hamingjusamt. Farið var í Art þar sem útbúnar voru hamingjusamar persónur í fullri stærð. Í íþróttahúsinu var farið í Tarsanleik þar sem allir fengu góða útrás og urðu þar af leiðandi mun hamingjusamari.

Inni í „stóra“ skóla var farið í tónmennt þar sem sungin voru lög sem tengjast hamingjunni, dansað, breikað og trallað. Á þeirri stöð voru hengdar upp trjágreinar sem voru skreyttar með vaxi og hjörtum sem á voru skrifuð jákvæð orð. Síðast en ekki síst voru bakaðar hamingjumúffur sem bornar voru fram í fjölsóttu foreldrakaffi sem haldið var þann 9. mars.

Í pistli Ernu Ingvarsdóttur á heimasíðu skólans segir að þessir dagar hafi tekist mjög vel og gert skólastarfið venju fremur skapandi og skemmtilegt. Nemendur hafi verið afar áhugasamir og tekið þátt af lífi og sál.

Fyrri greinTöluverð fjölgun nýbura
Næsta greinSunnlendingar sýna sig í Reykjavík