Lögreglan á Selfossi handtók í kvöld ökumann fjórhjóls sem ógnaði hestamönnum á göngustíg við Móhellu í suðurbæ Selfoss.
Um er að ræða göngustíg milli Hóla- og Helluhverfis sem hestamenn hafa notað óspart, þrátt fyrir að umferð hesta sé bönnuð um stíginn. Íbúar í næsta nágrenni við stíginn eru orðnir langþreyttir á hestaumferðinni auk þess sem ekki er þverfótað fyrir hrossaskít á stígnum.
Uppúr sauð í kvöld þegar fjórhjólamaðurinn, sem býr í hverfinu, fór að hrella hestamenn sem voru á ferð um stíginn með því að spóla í kringum þá. Hann var handtekinn og færður til yfirheyrslu á lögreglustöðinni á Selfossi. Umferð fjórhjóla er einnig bönnuð á stígnum.
Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Selfossi hafa þessar illdeilur staðið undanfarnar vikur en hestamenn hafa jafnvel rekið stóð um þennan stíg.
Málið er til skoðunar hjá lögreglunni á Selfossi.