„Ég geri þetta nú bara til að stytta mér stundirnar og hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir hinn 92 ára gamli Stefán Anton Jónsson á Stokkseyri sem sendir alltaf saumuð jólakort til vina og ættingja.
Fyrsta kortið saumaði hann fyrir tíu árum og hefur ekki hætt síðan. „Ætli þetta séu ekki að vera einhver sjöhundruð kort, sem ég hef saumað og sent frá mér fyrir hver jól en ég sendi að jafnaði sextíu til sjötíu kort,“ bætir Stefán við.
Hugmyndin kviknaði þegar hann leiddi hugann að því hversu mörgum jólakortum fólk henti eftir hver jól. „Ég hugsaði mér að útbúa jólakort sem fólk henti ekki, heldur héldi upp á og geymdi. Ég hef grun um að mínum kortum sé aldrei hent,“ segir Stefán og brosir.
Hann byrjar á því að gata kortin eins og munstrið á að líta út, þræðir síðan nálina og byrjar að sauma. Hluti af munstrunum er hans eigin hönnun.
„Ég er tvær til þrjár klukkustundir með hvert kort. Núna á ég eftir að útbúa tíu kort til að fylla upp í þann kvóta, sem ég sendi um næstu jól. Ég klára þau á næstu vikum,“ segir Stefán.