Harður árekstur á Austurveginum

Hörð aftanákeyrsla varð á Austurvegi til móts við Hörðuvelli á Selfossi laust eftir klukkan þrjú í dag. Ökumaður annars bílsins var fluttur til skoðunar á slysadeild.

Þarna var fólksbíl ekið aftan á stóran amerískan pallbíl, þannig að fólksbíllinn fór undir vinstra afturhorn pallbílsins og sneri honum á götunni. Fimm voru í pallbílnum og kenndu þeir sér ekki meins en ökumaður fólksbílsins var einn á ferð og var hann fluttur á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunar. Hann er ekki talinn alvarlega slasaður.

Fólksbíllinn er töluvert skemmdur en minna sér á pallbílnum.

Gríðarleg umferð er á Selfossi en hún hefur gengið áfallalaust að sögn lögreglu, fyrir utan þetta óhapp.

Fyrri greinStóðhestaveisla í Ölfushöllinni
Næsta greinHátt í hundrað eignir á sölu