Ökumenn jepplings og fólksbíls sluppu án teljandi meiðsla eftir árekstur á Hellisheiði í gærmorgun. Aðstæður voru erfiðar fyrir viðbragðsaðila á Heiðinni.
Þar hafði erlendur ferðamaður á bílaleigubíl stöðvað jeppling sinn úti í kanti og hugðist taka U-beygju en ók þá í veg fyrir fólksbíl sem kom aðvífandi úr austurátt.
Einn var í hvorum bíl og var ferðamaðurinn fluttur á slysadeild til skoðunar.
Ekki þurfti að beita klippum til þess að ná fólki út en slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði voru kallaðir út til þess að hreinsa olíu af veginum og koma í veg fyrir frekara mengunartjón.
Vetraaðstæður voru á heiðinni, hrímþoka, snjór og hálka. Í aðstæðum sem þessum getur verið bæði erfitt og hættulegt fyrir björgunaraðila að athafna sig vegna færis og aðvífandi umferðar.