Fjórir voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur tveggja fólksbíla á mótum Eyravegar og Suðurhóla við bæjarmörk Selfoss um klukkan hálfeitt í nótt.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tildrög slyssins með þeim hætti að öðrum bílnum var ekið af Suðurhólunum út á Eyraveginn í veg fyrir hinn bílinn sem var á leið inn í bæinn.
Þrír voru í öðrum bílnum og voru þeir allir fluttir á slysadeild HSu á Selfossi. Ökumaður hins bílsins var einn á ferð og var hann fluttur á slysadeild í Reykjavík. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi var kallaður á vettvang en beita þurfti klippum til þess að ökumaðurinn kæmist út úr bílnum.
Meiðsli fólksins voru ekki talin alvarleg. Bílarnir eru báðir stórskemmdir eftir áreksturinn og voru þeir dregnir á brott. Lögreglan lokaði hluta Eyravegarins á meðan fjölmennt lið viðbragðsaðila athafnaði sig á vettvangi.