Hörð aftanákeyrsla átti sér stað fyrr í dag á Suðurlandsvegi nærri Hveragerði þar sem starfsmaður hestaleigu var við umferðarstjórnun.
Starfsmaður hestaleigu hugðist stöðva umferð á veginum til þess að hleypa hestamönnum yfir. Ökumaður bifreiðar hægði á sér vegna bendinga starfsmannsins en ökumaðurinn sem kom á eftir áttaði sig ekki á því að bíllinn á undan hafði hægt svo mikið á sér. Ók hann því harkalega aftan á bílinn.
Enginn slasaðist alvarlega. Einn farþegi leitaði þó á spítala vegna eymsla í brjóstkassa. Bílarnir eru báðir óökufærir.
Á Vísi kemur fram að engum sé leyfilegt að stjórna umferð nema lögreglu og starfsmönnum Vegagerðarinnar sem standa í vegaframkvæmdum. Málinu hefur því verið vísað til lögfræðisviðs lögreglunnar þar sem kannað er hvort starfsmaður hestaleigunnar verði sektaður fyrir athæfið.