Þunguð kona var flutt á slysadeild eftir árekstur fólksbíls og vörubíls á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli eftir hádegi í dag.
Slysið átti sér stað um kl. 14 í dag en vörubílnum var ekið út á þjóðveginn í veg fyrir fólksbílinn sem kom úr vesturátt. Bílstjórarnir voru báðir einir á ferð en vörubílstjórinn slasaðist ekki.
Ekki var talið að meiðsli konunnar væru alvarleg en ítrustu varúðar var gætt þar sem hún er þunguð og verður hún flutt til skoðunar á slysadeild í Reykjavík.
Bílarnir eru báðir nokkuð skemmdir en dráttarbíll var notaður til að fjarlægja fólksbílinn.