Harður árekstur varð á Biskupstungnabraut við Klausturhóla í Grímsnesi um klukkan hálf ellefu í morgun.
Jepplingur og lítill fólksbíll lentu þar saman. Tveir voru í jepplingnum og voru þeir báðir fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Ökumaður fólksbílsins var fluttur á slysadeild til Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er ekki talið að meiðsli fólksins séu alvarleg.
Aðstæður á vettvangi voru ekki góðar til aksturs en í morgun snjóaði á Suðurlandi og talsvert slabb var á veginum þegar slysið átti sér stað.
Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu var einnig kallaður út en ekki kom til þess að beita þyrfti klippum til að ná fólkinu úr bílunum. Slökkviliðsmenn sáu hins vegar um að hreinsa vettvanginn eftir slysið.