Harður árekstur á Þorlákshafnarvegi

Frá vettvangi slyssins í dag. Ljósmynd/BÁ

Betur fór en á horfðist þegar harður árekstur varð á Þorlákshafnarvegi við Hjalla í Ölfusi á fjórða tímanum í dag.

Þar rákust tveir bílar harkalega saman og var mikill viðbúnaður vegna slyssins. Fjölmennt lið sjúkraflutningamanna og lögreglu frá Selfossi og slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði fóru á vettvang,

„Samkvæmt mínum upplýsingum voru þrír í öðrum bílnum og einn í hinum og það voru allir komnir út úr bílunum þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Fólkið slapp með minniháttar meiðsli og ekki þurfti að beita klippum til að ná neinum út. Slökkviliðsmenn hreinsuðu vettvanginn en báðir bílarnir voru mikið skemmdir.

Fyrri greinSorg og Gleði á jólasýningu fimleikadeildarinnar
Næsta greinStáltaugar Tryggva tryggðu sigurinn