Betur fór en á horfðist þegar harður árekstur varð á Þorlákshafnarvegi við Hjalla í Ölfusi á fjórða tímanum í dag.
Þar rákust tveir bílar harkalega saman og var mikill viðbúnaður vegna slyssins. Fjölmennt lið sjúkraflutningamanna og lögreglu frá Selfossi og slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði fóru á vettvang,
„Samkvæmt mínum upplýsingum voru þrír í öðrum bílnum og einn í hinum og það voru allir komnir út úr bílunum þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Fólkið slapp með minniháttar meiðsli og ekki þurfti að beita klippum til að ná neinum út. Slökkviliðsmenn hreinsuðu vettvanginn en báðir bílarnir voru mikið skemmdir.