Harður árekstur í Flóanum

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jeppi og pallbíll lentu í hörðum árekstri á Suðurlandsvegi við gatnamótin að Ölvisholtsvegi í Flóa á þriðja tímanum í dag.

Báðir bílarnir höfnuðu utan vegar eftir áreksturinn og var talsverður viðbúnaður vegna slyssins, meðal annars var kallaður út tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu.

Ekki þurfti þó að beita klippum til að ná fólkinu út úr bílunum en allir sem í þeim voru, fimm manns, voru fluttir á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins.

Fjögur önnur umferðarslys hafa orðið í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi frá því á föstudaginn en ekki urðu meiðsli á fólki í hinum slysunum.

Fyrri greinSelfyssingar fögnuðu sigri í fyrsta leik
Næsta greinTíu staðnir að hraðakstri