Harður árekstur varð við gatnamót Suðurlandsvegar og Hvammsvegar í Ölfusi rétt fyrir klukkan fimm í dag.
Fjórir voru fluttir á slysadeild á HSU á Selfossi en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi voru meiðsli fólksins minniháttar.
Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu var kallaður út, ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum. Slökkviliðsmenn unnu að hreinsunarstarfi á vettvangi en bílarnir voru mikið skemmdir eftir áreksturinn.
Suðurlandsvegur var lokaður um tíma vegna slyssins og var umferð beint um Hvammsveg og Ölfusveg á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi.