Verk og tæki ehf á Selfossi átti lægsta tilboðið í styrkingu og klæðningu Gaulverjabæjarvegar í Flóahreppi sem vinna á í sumar.
Ekki munaði nema 0,5% á tveimur lægstu tilboðunum. Verk og tæki bauð 96.999.999 krónur í verkið en Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir bauð 97.500.000 krónur. Mismunurinn á tilboðunum er 500.001 króna og bæði voru þau um 91% af áætluðum verktakakostnaði, sem er 103,9 milljónir króna.
Borgarverk ehf bauð einnig í verkið og var tilboð þeirra 131,6 milljónir króna.
Verkið felst í endurbótum á tveimur vegaköflum milli Þjóðvegar 1 og Holtsvegar sem eru alls 4,8 km langir. Verkinu á að vera lokið þann 1. september næstkomandi.