Einn var fluttur á slysadeild eftir harkalega bílveltu á Eyrarbakkavegi á ellefta tímanum í kvöld.
Fólksbíll á norðurleið fór útaf veginum vinstra megin í aflíðandi beygju við Stekka í Sandvíkurhreppi. Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið kl. 22:41 og var mikið viðbragð vegna þess.
Bifreiðin er gjörónýt og í fyrstu var haldið að ökumaðurinn, sem var einn á ferð, væri fastur í bílnum. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu var kallaður á vettvang en ekki kom til þess að beita þyrfti klippum, þar sem sjúkraflutningamenn náðu að koma manninum út úr bílnum. Hann var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.