Ákvörðun heilbrigðisráðherra að loka hjúkrunarheimilinu á Kumbaravogi er ekki samkvæmt ákvæðum rammasamnings Sjúkratrygginga Íslands um þjónustu hjúkrunarheimila.
Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sendi frá sér í vikunni.
Kumbaravogur starfar á grundvelli fyrrnefnds rammasamnings en hann var unninn í samvinnu við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Samband íslenskra sveitarfélaga, gefinn út af SÍ og undirritaður og staðfestur af heilbrigðisráðherra þann 21. október á síðasta ári.
„Ákvæði rammasamningsins kveða á um sérstakt ferli fyrir þau tilvik þegar talið er að þjónustu hjúkrunarheimilis sé ábótavant. Ferlið veitir stjórnvöldum heimild til að beita ákveðnum vanefndarúrræðum, en kveður ennfremur á um eðlilega fresti handa hjúkrunarheimilinu til úrbóta. Ákvörðun var hins vegar tekin af hálfu velferðarráðuneytisins um að fylgja ekki ákvæðum samningsins,“ segir í ályktun SFV.
Stjórn SFV bendir á að með gerðum rammasamningi var verið að auka rekstrarfé hjúkrunarheimila vegna viðvarandi fjárskorts heimilanna undanfarin ár. Með því að fylgja ferlum samningsins hefði rekstraraðili Kumbaravogs fengið tækifæri til að nýta þá fjármuni til úrbóta á þjónustunni.
Stjórn SFV harmar því þá ákvörðun stjórnvalda að fylgja ekki ákvæðum rammasamningsins og telur hana ekki til þess fallna að auka tiltrú á samningnum.
Þá gerir stjórn SFV sérstaka athugasemd við þá staðreynd að í úttekt Embættis landlæknis á starfsemi hjúkrunarheimilisins, sem ráðherra lagði til grundvallar við ákvörðun sína um lokun þess, er m.a. byggt á því að hlutfall faglærðra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu fullnægi ekki faglegum viðmiðum Embættis landlæknis um mönnun á hjúkrunarheimilum.
Við gerð áðurnefnds rammasamnings um þjónustu hjúkrunarheimila lá það alveg skýrt fyrir að ef hjúkrunarheimili landsins ættu að geta farið eftir umræddum viðmiðum Embættis landlæknis, yrði að stórauka greiðslur til heimilanna þar sem greiðslurnar standa engan veginn undir þeim kostnaði sem hlytist af því að uppfylla viðmiðin.
„Vegna þessa höfnuðu stjórnvöld því alfarið að leggja mönnunarviðmið Embættis landlæknis til grundvallar við ákvörðun endurgjalds ríkisins fyrir þjónustuna. Ítrekað kom fram í viðræðunum af hálfu stjórnvalda að um væri að ræða viðmið, sem fælu ekki í sér eiginlegar kröfur á hjúkrunarheimilin og aðilar væru meðvitaðir um að þau yrðu ekki uppfyllt,“ segir ennfremur í ályktuninni.
SFV hafði og hefur miklar áhyggjur af þessari staðreynd og telur eðlilegra að hjúkrunarheimilum sé tryggt nægilegt fjármagn til að fylgja viðmiðunum.
Meðan á viðræðum um rammasamning stóð var þessari afstöðu SFV ítrekað komið á framfæri við velferðarráðuneytið, heilbrigðisráðherra, SÍ og Embætti landlæknis, bæði á fundum sem og í formlegum bréfum til samningsaðila. Að loknum kosningum í vetur var ennfremur öllum alþingismönnum sent sérstakt bréf þar sem þeir voru upplýstir um þessa staðreynd. Stjórn SFV telur því fráleitt að umrædd mönnunarviðmið séu lögð til grundvallar í úttektum Embættis landlæknis á þjónustu hjúkrunarheimila. Ekki er hægt að gera kröfu um meiri mönnun en ríkið er reiðubúið að greiða fyrir.
Stjórn SFV hefur því falið formanni samtakanna að óska eftir sameiginlegum fundi með Embætti landlæknis, velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands þar sem farið verði yfir þessi mál.