Hárrétt viðbrögð starfsfólks komu í veg fyrir mikið tjón þegar eldur kviknaði í fitu á grilli á veitingastaðnum Meitlinum í Þorlákshöfn á þriðjudagskvöld.
Starfsmaður breiddi úr eldvarnateppi yfir grillið og þegar slökkviliðið bar að var eldurinn slökktur. Einhver reykur var í húsnæðinu og aðstoðuðu slökkviliðsmenn við reykræstingu.
Í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu segir að það sé ljóst að snör og rétt viðbrögð komu þarna í veg fyrir frekara tjón því á elda sem þessa á alltaf að nota eldvarnateppi. Ef starfsfólk hefði reynt að slökkva í með t.d. vatni má búast við að sprenging hefði orðið og tjónið ófyrirsjáanlegt.
Vegna þessara réttu viðbragða hafði eldurinn lítil áhrif á starfsemina sem hélt áfram þegar slökkviliðið hafði lokið störfum á vettvangi.
Brunavarnir Árnessýslu hvetja alla til að vera með eldvarnateppi í eldhúsinu, sama hversu stórt eða smátt það er. Nú eru sumarstarfsmenn að hefja störf á mörgum veitingastöðum og má ekki gleyma að kynna fyrir þeim staðsetningu öryggisbúnaðar og rétt viðbrögð þegar hætta skapast.