Á síðasta fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra gerðu fulltrúar minnihlutans í Á-listanum athugasemdir við hvernig ákvörðun um sumarlokun leikskólanna í sveitarfélaginu var tekin. Á-listinn telur að meirihlutinn hafi brotið nýsamþykktar siðareglur sveitarfélagsins.
Fyrr í vetur hafði fræðslunefnd sveitarfélagsins í tvígang fjallað um sumarlokanir Leikskólans á Laugalandi og Heklukots á Hellu og vinnuhópur var skipaður af sveitarstjórn til að funda með hagsmunaaðilum.
Eftir rækilega yfirferð komst fræðslunefndin að þeirri niðurstöðu að loka ætti báðum leikskólunum í fimm vikur frá 1. júlí til 2. ágúst. Niðurstaða fræðslunefndar var fengin eftir að leitað var álits frá foreldrafélögum beggja leikskólanna.
Áður hafði fyrirtækið Reykjagarður sent sveitarfélaginu bréf þar sem farið var fram á að leikskólanum Heklukoti á Hellu verði ekki lokað á sumrin og starfið verði skipulagt á annan hátt. Fræðslunefnd benti þá á reglugerð sem segir að gert sé ráð fyrir því að leikskólabörn fái að minnsta kosti fjögurra vikna sumarleyfi.
Á síðasta fundi hreppsráðs lagði meirihlutinn síðan fram þá tillögu að sumarlokun Heklukots yrði frá 15. júlí til 12. ágúst og tók þannig ekki til greina niðurstöðu fræðslunefndar. Endanleg tillaga sem samþykkt var á hreppsnefndarfundinum á föstudaginn var sú að sumarlokun Heklukots verði frá 15. júlí til og með 16. ágúst.