Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hvetur fulltrúa í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands til þess að standa vörð um það mikilvæga nám sem fer fram í garðyrkjudeild skólans að Reykjum í Ölfusi.
Á fundi sem nýlega var haldinn á Hvanneyri kynntu fyrirsvarsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands stefnu um starfsemi skólans en þar eru lagðar til breytingar á inntaki og eðli garðyrkjunáms.
Í bókun sem samþykkt var á síðasta stjórnarfundi SASS segir að starfsemi landbúnaðarháskólans sé samfélaginu á Suðurlandi mjög mikilvæg enda er garðyrkja einn af drifkröftum í atvinnulífinu í landshlutanum.
„Allar breytingar á eðli náms við garðyrkjudeild LbhÍ skipta því miklu máli. Á Reykjum hafa nemendur sótt gott og fjölbreytt starfsnám sem bæði hefur nýst til áframhaldandi náms en einnig sem góður grunnur fyrir störf á vettvangi garðyrkjunnar,“ segir í bókun stjórnar SASS sem hvetur háskólaráðið til þess að leita allra leiða til að efla það enn frekar með það að leiðarljósi að garðyrkja í sinni fjölbreyttustu mynd fái sem best dafnað í landinu öllu.
Stjórn SASS kallar eftir því að háskólaráðið taki engar ákvarðanir um nýja stefnu nema með víðtæku samráði við alla hagaðila, þar með talin sveitarfélögin á svæðinu, og að undangengnu ítarlegu mati á þeim áhrifum sem slíkar breytingar gætu mögulega haft á námið og aðgengi nemenda að því.
„Stjórn SASS lýsir yfir fullum vilja til að koma að samráði um mörkun stefnu fyrir garðyrkjudeild LbhÍ og telur að með víðtæku samráði sé hagsmunum garðyrkjunnar best borgið,“ segir ennfremur í bókuninni.