Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti fyrstu trén í Vigdísarlundi á föstudaginn en þá var lundurinn afhjúpaður í Hveragerði, henni til heiðurs.
Haldið var upp á þau tímamót að 35 ár eru síðan Vigdís var kjörin forseti Íslands, og var hún fyrst kvenna í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti. Til að fagna þessum tímamótum var ákveðið að gróðursetja þrjú birkitré af stofni Emblu.
Skógræktarfélög um allt land stóðu að verkefninu en einnig komu Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmdinni og ýmis félagasamtök og fyrirtæki.
Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Ákveðið var að halda þessum fallega sið og fengin voru þau Sóldís Anna Guðjónsdóttir fyrir hönd stúlkna, Bjartur Geirsson fyrir hönd drengja og fyrir hönd ófæddra barna var barn í móðurkviði Sunnu Siggeirsdóttur og Friðriks Sigurbjörnssonar sem væntanlegt er í heiminn þann 9. ágúst.
Fjölmenni var viðstatt gróðursetninguna í Vigdísarlundi, en lundurinn er í Smágörðunum við Breiðumörk. Þar stendur nú skilti svo að þeir sem eigi þar leið um muni ávallt vita að til þessa reits var stofnað af virðingu við Vigdísi forseta.