Hátt í 2.000 manns mættu á tónleika áhafnarinnar á Húna II á bryggjunni í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Það var mikil og góð stemning á bryggjunni og uppklappinu linnti ekki fyrr en tekið var aukalag.
Íbúar fjölmenntu á svæðið en einnig komu gestir víða að til að njóta tónlistar í stillu og úða á bryggjunni. Þarna fóru þau Jónas Sig, Lára Rúnars, Mugison, Ómar Guðjónsson, Guðni Finnsson og Arnar Gíslason á kostum og ekki hægt að merkja neina þreytu í áhöfninni eftir dagana á sjó.
Einnig komu fram Tónar og Trix, tónlistarhópur eldri borgara í Ölfusi undir stjórn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur. Þau sungu með Mugison lagið „Stingum af“ og gerðu það mjög vel.
Áhöfnin á Húna II fékk höfðinglegar móttökur þegar báturinn kom til hafnar í gær, börn úr þorpinu biðu á bryggjunni með spjöld þar sem áhöfnin var boðin velkomin og Lúðrasveit Þorlákshafnar spilaði.