Hef aldrei áður gefið út á vinyl

„Það frekar langt síðan ég samdi þetta lag, þannig að þetta er bara til þess að halda áfram," segir Lovísa Elísabet, Lay Low, um nýja lagið sitt The Backbone sem kom út á tveggja laga vinyl-plötu fyrir stuttu.

„Þetta var bara til þess að minna á sig og það hafa verið rosalega góðar viðtökur. Ég held að vinyllinn eigi eftir að klárast. Þetta er líka gaman fyrir mig því ég elska vinyl og hef aldrei áður gefið út á vinyl. Svo er þetta gott bara til að gefa mömmu og pabba,“ segir Lovísa.

Lovísa ætlar að nýta tímann vel fram að jólum við að semja nýtt efni og taka upp. Lagið, The Backbone, er upphafið að nýrri plötu sem kemur væntanlega út í október á næsta ári, en allar plötur hennar til þessa hafa komið út í október.

„Það er mjög langt síðan ég hef komið með plötu á ensku og þetta er aðallega til þess að vera með eitthvað nýtt þegar ég er úti. Fólk hefur verið að biðja um eitthvað nýtt og ég bara rétti þeim plötu frá því 2006.“

Viðtal við Lovísu, sem er nýflutt í Ölfusið, er að finna í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinVörubíll valt í Kömbunum
Næsta greinBuster varði titilinn