Fyrr á þessu ári opnaði verslunin Ilmurinn að Eyravegi 65 á Selfossi. Verslunin sérhæfir sig í heilnæmum hýbílailmum.
„Ég hef ástríðu fyrir ilmvörum og sérstaklega öruggum ilmvörum. Eftir að ég eignaðist börnin mín tvö þá fór ég að huga að innihaldi í ilmvörunum sem ég var að nota, og kom í ljós að þær voru ekki allar náttúruvænar eða öruggar, reyndar mjög fáar,“ segir Ásthildur Þorsteinsdóttir eigandi og stofnandi Ilmurinn, í samtali við sunnlenska.is.
„Ég flutti út til Spánar með fjölskylduna í eitt og hálft ár og kynntist þar vörum sem ég kolféll fyrir. Það voru kertavaxhitarar sem hita ilmandi vaxkubba á lágu hitastigi svo börnin voru ekki að brenna sig með því að koma við þá. Þarna kviknaði hugmyndin að fyrirtækinu.“
Framleiðir sjálf úr hágæða hráefnum
Ásthildur framleiðir ilmvax, ilmstrá og annað sem hún gerir sjálf úr hágæða hráefnum og kaupir eingöngu inn efni sem eru ekki prufuð af dýrum og standast allar kröfur.
„Ég fór á námskeið sem heitir Brautargengi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands veturinn 2018 og fékk þar mikla og góða innsýn og handleiðslu um hvernig eigi að stofna fyrirtæki. Í mars síðastliðnum stofnaði ég félag í kringum reksturinn og opnaði síðan verslunina í maí en þá var ég búin að vera með netverslun síðan í febrúar í hittifyrra,“ segir Ásthildur og bætir því við að viðtökurnar hafa verið mjög góðar frá upphafi.
Er alltaf að bæta úrvalið
Sem fyrr segir er verslunin staðsett að Eyravegi 65 á Selfossi, í sama húsi og Nytjamarkaðurinn nema að inngangurinn er Eyravegsmegin. „Ég var ekki beint að leita að húsnæði, var bara skoða með öðru auganu en datt inn á hentugt húsnæði svo ég ákvað að slá til. Það var vont að fá viðskiptavini í lagergeymsluna að skoða vörurnar og draumurinn var að opna verslun.“
„Aðal vörurnar eru kertavaxhitarar og ilmvax. Hitararnir hita ilmvax á lágu hitastigi svo að engin eiturefni fara út í andrúmsloftið, engin opin eldur og ekkert sót. Ilmvaxið er bæði innflutt og handgert af mér. Einnig er hægt að fá baðbombur, ilmsprey, ilmstrá og fleira ilmtengt. Ég er svo alltaf að bæta við úrvalið og er að taka inn núna æðislegar ilmvörur sem eru fyrir þvottinn.“
„Ilmurinn er fyrir alla þá sem vilja að heimilið sitt ilmi vel, fyrir alla sem vilja öruggan ilm. Fólk á aldrinum 25 ára og uppúr er stærsti kúnnahópurinn,“ segir Ásthildur að lokum.