„Ég fann mig vel í vítakeppninni en ég átti sök á fyrsta marki leiksins og þurfti að bæta fyrir það,” sagði Jóhann Ólafur Sigurðsson, eftir að hafa varið fjórar vítaspyrnur frá Skagamönnum í kvöld.
Jóhann var mjög einbeittur í vítakeppninni en hann segist lítið muna eftir því hvaða hugsanir fóru í gegnum hugann á meðan keppnin fór fram. „Ég man bara ekki eftir neinu. Ég man að ég varði nokkra bolta og svo lamdi ég hausnum í jörðina eftir eina spyrnuna. Það var ekki til að bæta minnið, en ég er ánægður með þetta og það er gaman að vera komnir áfram í keppninni.”
Jóhann hefur nú varið sex vítaspyrnur í síðustu þremur leikjum liðsins en hann segist þó ekki vera annálaður vítabani. „Ég hef varla varið víti áður þannig að það er ekki hægt að stimpla mig sem vítabana. Það er líka erfitt að æfa þetta þegar menn eins og Sævar eru að taka víti á æfingum. Maður verður að leyfa honum að skora svo að honum líði vel.”
Hjörtur Hjartarson tók fyrstu spyrnu Skagamanna og Jóhann varði hana auðveldlega. Þetta er annað vítið í röð sem Hjörtur klikkar á gegn fyrrum samherja sínum en hann skaut framhjá í bikarleik liðanna í fyrra. „Ég sagði það fyrir þann leik að Hjörtur væri ekkert að fara að skora hjá mér og ég hafði litlar áhyggjur af því að það myndi breytast í kvöld,” sagði Jóhann léttur á brún að lokum.