Í ljósi aðstæðna hefur skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði, að höfðu samráði við fræðsluyfirvöld, bæjarstjórn og sóttvarnayfirvöld á Suðurlandi ákveðið að fella niður hefðbundið skólastarf dagana 23. mars til 4. apríl.
Annað smit í starfsmannahópnum
Eftir að starfsmaður í skólanum greindist með COVID-19 á dögunum og stór hluti nemenda fór í sóttkví var ákveðið að fella niður skólastarf til 23. mars. Nú hefur komið upp annað smit í starfsmannahópnum og fleiri þurft að fara í sóttkví.
Skólinn mun taka á móti börnum (1.-4. bekkja) foreldra á forgangslistum frá þriðjudeginum 24. mars. Foreldrar eða forráðmenn þurfa að sækja um forgang fyrir börn sín í skóla og er þá jafnframt sótt um aðgang 1. og 2. bekkinga að Skólaseli.
Á forgangslistanum eru meðal annars heilbrigðisstarfsfólk, viðbragðsaðilar og starfsfólk í stjórnsýslu hjá ríki og sveitarfélögum.
Vinnum slaginn saman – í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru
Fyrirkomulag náms og kennslu þeirra nemenda sem stunda nám sitt alfarið heima, verður áfram kynnt í tölvupóstum og á þeim stafræna vettvangi sem kennarar hafa valið til samskipta.
„Það eru margar ákvarðanir sem hafa verið teknar síðustu daga við flóknar og erfiðar aðstæður. Við erum öll á sama báti og heyjum orrustu við hættulegan vírus. Þann slag vinnum við saman, en í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru,“ segir Sævar Þór Helgason, skólastjóri, í tilkynningu frá skólanum.