„Ég trúi því að verkinu verði ýtt af stað á næsta ári, því við eigum marga góða samherja í stjórnsýslunni sem sýna þessu verkefni mikinn skilning,“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps um Þekkingarsetur sem áform voru uppi um að byggja á Klaustri.
„Ég vona að það náist góð sátt um það hjá ráðamönnum þjóðarinnar að ganga ákveðið til verks og setrið verði boðið út á komandi ári, eftir það er eðlilegt að gefa sér tvö til þrjú ár í framkvæmdina,“ segir hún.
Eva segir íbúa Skaftáhrepps vera búin að bíða lengi eftir slíkri uppbyggingu. Við erum orðin frekar aftarlega á merinni þegar kemur að því að taka sómasamlega á móti ferðamönnum sem eru að sækjast í upplifun Vatnajökulsþjóðgarðs,“ bætir hún við.
Sérstök nefnd hefur verið að störfum, sem hefur skilað af sér skýrslu til Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra, þar sem er óskað eftir því að verkið verði boðið út. Í nefndinni störfuðu Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, Hjalti Þór Vignisson f.h. Vatnajökulsþjóðgarðs, Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps og Eva Björk.
„Markmið nefndarinnar var að leita leiða og koma með tillögur að uppbyggingu Þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Ætlunin er að það hýsi gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á okkar svæði, Errósetur og skrifstofu og fundaraðstöðu fyrir Skaftárhrepp. Þá verður þar jafnframt rannsóknarsetur HÍ, þekkingarsetur Nýheima, Símenntun, Kirkjubæjarstofa, Katla jarðvangur, Náttúrustofa Suðausturlands, Friður og Frumkraftar, Háskólafélag Suðurlands og Suðurlandsskógar, “ bætir Eva Björk við.
Ætlað er að byggingin verði um 1600 fermetrar að stærð og mun væntanlega kosta á annan milljarð króna.