Viking Park Iceland er í viðræðum við ferðaþjónustuaðila um gjaldtöku inn á Mýrdalssand, nánar tiltekið leiðirnar upp að Hafursey og Kötlujökli.
mbl.is greinir frá þessu.
Jóhann Vignir Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Viking Park Iceland, staðfestir í samtali við mbl.is að engar áætlanir séu uppi um greiðsluskyldu einstaklinga, einungis fyrirtækja. Jóhann segir að með gjaldtökunni sé ætlunin að takmarka umferð á svæðinu og stöðva utanvegaakstur.
Áætlað er að gjaldtakan hefjist 1. júlí en Jóhann segir undirbúningsvinnu hafa staðið lengi og að allt verði gert í samræmi við gildandi lög og reglur.