Ríflega 1.000 rúmmetrar af rauðamöl hafa verið fluttir út í sumar á vegum Jarðefnaiðnaðar ehf. í Þorlákshöfn.
Rauðamölin er tekin í Seyðishólum í Grímsnesi en að sögn Bjarna Jónssonar framleiðslustjóra er hún notuð í ræktun ytra. Bjarni sagðist ekki treysta sér til að segja hvort mikil aukning yrði á þessum útflutningi en áður hafa verið uppi stór áform um útflutning á rauðamöl frá Seyðishólum.
Jarðefnaiðnaður flytur árlega út um 60 til 70 þúsund rúmmetra af Hekluvikri og starfa nú um 11 manns hjá fyrirtækinu. Allur útflutningur fer fram í gegnum höfnina í Þorlákshöfn. Að sögn Bjarna hafa markaðsaðstæður verið fremur erfiðar undanfarið. Mikið hefur verið selt til Danmerkur og markaðir í Þýskalandi hafa verið að glæðast.
Jarðefnaiðnaður hefur starfað á sömu kennitölunni allt síðan 1977 en nú segir Bjarni að samkeppni við BM Vallá hafi harðnað eftir að reksturinn lenti í höndum bankanna. ,,Okkur finnst þetta ekki beinlínis sanngjörn samkeppni,“ sagði Bjarni.