Vegna samkomutakmarkana eru jólahlaðborðin með breyttu sniði í ár. Í staðinn fyrir að fólk flykkist á jólahlaðborð á veitingastöðum hafa margir veitingastaðir gripið til þess ráðs að bjóða fólki upp á að taka jólahlaðborðið með sér heim, þar sem það getur snætt í fámennum hópi.
Kaffi Krús á Selfossi er eitt þeirra fyrirtækja sem bjóða upp á að taka jólahlaðborðið með sér heim og hafa jólahlaðborðin hjá þeim heldur betur slegið í gegn.
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Það byrjaði rólega en spurðist svo út og síðustu tvær helgar hafa verið frábærar,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Kaffi Krúsar.
Tómas segist alveg eins hafa átt von á því að jólahlaðborðin yrðu vinsæl. „Ég hef auðvitað verið með jólahlaðborð í mjög mörg ár. Var yfirkokkur á Hótel Selfossi í tíu ár og svo seinna á Hótel Örk. Eins þegar ég rak Tryggvaskála fyrir nokkrum árum. Í gegnum árin hafa hlaðborðin mælst mjög vel fyrir. En að því sögðu, þá var ég að vona að samkomubannið yrði hækkað í tuttugu manns og það voru hópar sem hættu við útaf því.“
Hangikjöts tartalettur sígildar
Á jólahlaðborði Kaffi Krúsar má finna sérlega fjölbreytta rétti. „Við erum með grafna og reykta gæs, hreindýrapate, nauta carpaccio, karrýsíld, jólasíld, heitreyktan lax, chorizo, kalkún með fyllingu, léttreyktan grísahnakka, hangikjöts tartalettur, ris a la mande og köku að hætti Idu. Svo er auðvitað fullt af spennandi meðlæti,“ segir Tómas.
„Heitreykti laxinn, gæsin, patéið og kalkúnninn hafa fengið bestu dómana. Svo eru hangikjöts tartalettur sígildar og fólki finnst það skemmtilegt twist að hafa þær á hlaðborði,“ segir Tómas sem bætir því við að þeir sem hafa ekki áhuga á jólahlaðborðinu en vilja fá eitthvað jólalegt að borða, geta alltaf komið á Krúsina og gætt sér á hreindýraborgara, sem er sérlega vinsæll.
Bjartsýnn á nýja árið
Tómas segist eiga von á því að fólk muni áfram vilja fá jólahlaðborðið heim eftir að COVID-19 lýkur. „Þetta hefur gengið alveg rosalega vel og gæti alveg verið komið til að vera. Við náðum að gera frábæra takeaway aðstöðu þegar COVID byrjaði þannig að það hefur gengið mjög vel að afgreiða fólk og passa upp á fjarlægð um leið.“
„Nýja árið leggst vel í mig. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og viss um að 2021 verði árið. Ég hlakka til að fá alla fastagestina aftur þegar COVID verður búið,“ segir Tómas að lokum.