Ragnhildur Birna Jónsdóttir á Hvolsvelli hefur saumað sjö þjóðbúninga á síðustu fjórum árum samhliða fullri vinnu. Einnig hefur hún endurgert fjöldan allan af þjóðbúningum frá forfeðrum sínum.
Staðan er því sú í dag að flestir fjölskyldumeðlimir, ásamt góðum vinum hafa fengið búninga. Á þjóðhátíðardaginn, síðastliðinn miðvikudag, klæddi stór fjölskylda Ragnhildar sig upp í þjóðbúninga sem hún hafði farið höndum um.
Það eru aðeins fjögur ár síðan Ragnhildur byrjaði að sauma, og kom það til vegna útskriftar yngri dóttur hennar. Dótturinni langaði að útskrifast í upphlut sem móðuramma hennar átti hér áður fyrr og þurfti talsverða lagfæringu til að hún gæti notað búninginn. Ragnhildur leitaði til „Annríki- Þjóðbúningar og skart“ sem sérhæfir sig í þjóðbúningum og fékk þar aðstoð og kennslu til að sauma, breyta og laga.
Eftir það vaknaði áhugi um sögu og þjóðbúninga og sótti hún hvert námskeiðið á fætur öðru sem í boði var hjá þeim og saumaði hún meðal annars skautbúning á eldri dóttur sína og svo tvo herrabúninga á son og tengdason.
Margir af fallegu barnabúningunum sem Ragnhildur hefur gert eru prjónaðir. Að hennar sögn henta þeir vel á yngstu börnin þar sem þau stækka hratt og auðveldara er að þvo þá. Að sögn Ragnhildar er hún afskaplega ánægð með hvað fjölskylda hennar og vinir hafa tekið áhugamálinu vel og eru ávallt tilbúin að klæða sig í sitt fínasta tau við hin ýmsu tilefni.