Hefur þungar áhyggjur af gríðarlegum hækkunum á raforkuverði

Ljósmynd/islenskt.is

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim gríðarlegu hækkunum á raforkuverði sem þegar hafa orðið og þeim viðbótarhækkunum sem boðaðar eru á næstu vikum.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á síðasta fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps.

„Það er ljóst að kostnaður og þá ekki síst garðyrkjubænda sem treysta á raflýsingu við framleiðslu sína mun hækka um allt að 30% um næstu áramót. Slíka hækkun geta garðyrkjubændur ekki borið án þess að hækka afurðaverð sitt til neytenda sem aftur getur orðið til þess að samkeppnisstaða innlendra framleiðenda verði verri en hún er í dag. Það er með öllu ólíðandi að ráðist skuli með þessum hætti að grunnforsendum mikilvægrar matvælaframleiðslu í landinu á sama tíma og meðvitund okkar allra um fæðuöryggi þjóðarinnar er sífellt meira í umræðunni,“ segir í ályktuninni.

Í Hrunamannahreppi er fjöldi garðyrkjustöðva sem treysta á lýsingu við framleiðslu sína og segir sveitarstjórnin að rekstri þessara fyrirtækja sé nú teflt í tvísýnu.

„Sveitarstjórn hvetur stjórnvöld til að endurskoða fyrirkomulag við verðlagningu og sölu raforku áður en óbætanlegur skaði verður af því kerfi sem nú er til staðar. Einnig vill sveitarstjórn hvetja þingmenn til að beita sér fyrir ívilnunum til garðyrkjubænda til dæmis í formi styrkja til kaupa á sparneytnari lýsingarbúnaði sem allra fyrst, að
öðrum kosti er hætta á að íslensk garðyrkja verði ekki svipur hjá sjón í framtíðinni,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Fyrri greinSkítamórall á heimaslóðum í kvöld
Næsta greinÍbúar fari vel með heita vatnið