Listasafn Árnesinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðastliðinn þriðjudag. Forseti Íslands afhenti verðlaunin.
„Verðlaunin eru bæði heiður fyrir safnið og Árnesinga en líka hvatning til þess að slá ekki af kröfum og gera enn betur. Verðlaununum fylgir líka fjárupphæð sem alltaf kemur sér vel og getur verið drifkraftur til þess t.d. að efla fræðslustarfsemi safnsins, en nýbúið er að ráða tvo nýja starfsmenn sem einkum er ætlað að sinna fræðslu- og kynningarmálum,“ sagði Inga Jónsdóttir, safnstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Þó ég taki við þessum verðlaunum fyrir hönd safnsins þá eru margir sem eiga þakkir skildar fyrir þennan árangur. Þar vil ég fyrst telja fyrirrennara mína í starfi, Birnu Kristjánsdóttur og Hildi Hákonardóttur, stjórn safnsins og Héraðsnefnd Árnesinga sem er fjárhagslegur bakhjarl safnsins. Ég vil líka þakka öllum þeim fjölmörgu sýningarstjórum og listamönnum sem sýningar safnins og dagskrá hefur byggt á, samstarfsaðilum í öðrum söfnum og Safnaráði,“ bætti Inga við.
Fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar
Í greinagerð valnefndar segir að Listasafn Árnesinga bjóði upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einka- og samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins. Safnið heldur úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins.
Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins sem opið var almenningi og hefur sýnt sig og sannað sem öflugt og framsækið listasafn. Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.
Listasafn Árnesinga, Grasagarðurinn í Reykjavík, og Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands voru tilnefnd til verðlaunanna.
Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna og Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.