Það var margt um manninn við brautskráningu frá Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn föstudag. Þá luku 146 nemendur námi og aldrei í sögu skólans hafa fleiri nemendur útskrifast í einu.
Dúx skólans að þessu sinni varð Selfyssingurinn Heiðar Snær Bjarnason, sem hlaut auk þess viðurkenningu fyrir afburða námsárangur í rafvirkjun. Sérstök raungreinaviðurkenning Háskólans í Reykjavík kom í hlut Sigurðar Karls Sverrissonar og menntaverðlaun Háskóla Íslands hlaut Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir. Viðurkenningu og fjárstyrk Hollvarðasamtaka skólans úr hendi 50 ára stúdentsins Veru Óskar Valgarðsdóttur hlutu Heiðar Snær Bjarnason, Dröfn Sveinsdóttir og Kristjana Ólafsdóttir.
Flestir nýstúdentanna útskrifuðust af opinni námslínu eða 40 nemendur en margir einnig úr iðnnámi, þar af 28 nemendur af húsasmíðabraut og 14 af rafvirkjabraut.
Í annál Sigursveins Sigurðssonar, aðstoðarskólameistara, kom fram að 1.136 nemendur voru skráðir til náms í upphafi vorannar þar af 116 nemendur í garðyrkju og tengdum greinum að Reykjum í Ölfusi og 73 nemendur í fangelsum landsins.