Heiðbrá Ólafsdóttir formaður Miðflokksdeildar Rangárþings hefur ákveðið að sækjast eftir 2. sæti á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Heiðbrá er lögfræðingur og kúabóndi á Stíflu í V-Landeyjum.
„Kæru mæður, hamingjuóskir með daginn ykkar. Það er að mörgu leyti hægt að líkja mæðrahlutverkinu við stjórnmálastarfið. Að sjá einfalda hversdagshluti í breiðara samhengi, að setja hagsmuni annarra ofar sínum eigin, að vinna ötullega og óeigingjarna vinnu á hverjum degi með bættri velferð að leiðarljósi,“ segir Heiðbjört í bréfi sem hún sendi frá sér í dag.
Heiðbrá er nýbökuð tveggja barna móðir, með lögfræðimenntun frá háskólanum á Akureyri og háskólanum í Ósló. Hún hefur meðal annars starfað hjá sendiráði Íslands í Osló. Einnig hefur hún staðist hæfismats framkvæmdarstjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja hjá FME og situr í stjórn Byggðastofnunar, auk þess sem hún hefur verið virk í félagsstörfum.
„Byggðamálin, landbúnaðurinn og velferð fjölskyldnanna í landinu skipta mig máli og vil ég leggja mitt af mörkum fyrir framtíð barnanna okkar og samfélagið allt, fyrir Ísland allt,“ segir Heiðbrá.